A A A
Veftré
Valmynd Greinar/Pistlar Tenglar

Reykjavķkurferš


Um síðustu helgi fóru þrjár starfskonur á leiðbeinandanámskeið Stígamóta. Lísbet, nýja starfkonan okkar, Harpa Stefáns og Harpa Oddbjörns héldu suður á bóginn með aðstoð Rauða Krossins sem styrkir okkur alltaf með því að greiða fyrir þau flugför sem við þurfum á að halda. Alveg ótrúlegur velvilji sem við mætum alltaf hjá þeim! Eyddum við þrjár helginni með frábæru fólki með mikla hugsjón varðandi baráttuna gegn kynferðislegu ofbeldi. Þema námskeiðsins var mörk. Hvar mörk okkar og annarra liggja. Mikið ofboðslega höfðum við gott af því að fara í gegnum þetta. Algjörlega magnað.

Þátttakendur voru um 15 manns og einstaklega ánægjulegt var að sjá að tveir karlmenn voru þar á meðal.  Það var alveg frábært fá að kynnast þeim! Námskeiðið stóð yfir alla helgina frá kl 9:15 til 16-17 seinnipartinn. Aldrei fórum við úr húsinu á meðan námskeiðinu stóð enda þjappaði það okkur enn meira saman að vera ekki að flækjast hingað og þangað í hádegismat. Margir þátttakendur voru að sitja sitt annað leiðbeinandanámskeið og voru þarna einhverjir sem höfðu komið oftar. Sýnir okkur bara að það er alltaf hægt að læra eitthvað nýtt. Við munum klárlega mæta aftur næst!

Á mánudeginum áttum við góðan fund með Sigríði Björnsdóttur hjá Blátt áfram samtökunum og fórum við yfir stöðu mála. Eins og þið vonandi vitið þá erum að taka þátt í forvarnarátaki þeirra „Verndarar barna“.  Það eflir og styrkir okkur sólstafakonur gríðarlega að fara suður öðru hvoru til að styrkja tengslin og sækja okkur nýjar upplýsingar svo við getum unnið starf okkar betur hér á Vestfjörðum. Alger óþarfi er að finna upp hjólið aftur og aftur.

Lísbet og Harpa O framlengdu ferð sína um sólahring vegna beiðni Sigríðar um að vera með henni á blaðamannafundi á þriðjudeginum. Þar kynnti hún forvarnarátakið fyrir fjölmiðlum, sýndi auglýsingarnar sem farnar eru í loftið og svo framvegis. Við sólstafakonur vorum beðnar um að segja frá því hvað við værum búnar að áorka hér vestra og hvernig við færum eiginlega að því að fá öll þessi sveitarfélög til þess að vinna að þessu með okkur.  Okkur þótti svo sannarlega ekki leiðinlegt að segja frá því.

Eftir blaðamannafundinn sat ein okkar málstofu hjá Háskólanum í Reykjavík þar sem talað var um sönnunarfærslu í kynferðisbrotamálum. Mjög áhugavert að hlusta á fyrirlesarana þar.Við mynduðum  mikilvæg tengsl við aðila eins og Svandísi Ingimundardóttur þróunar- og skólafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og Svölu Ísfeld Ólafsdóttur lögfræðing við Háskólann í Reykjavík. Svala hefur skrifað mikið af efni í tengslum við kynferðisafbrot. Hún bauð okkur aðstoð sína og ætlar meðal annars að senda okkur eitthvað af því efni sem hún hefur skrifað. Eins og þið sjáið hafa undanfarnir dagar verið annasamir og gríðarlega ánægjulegir fyrir okkur. Og meira er í vændum.

Fylgist vel með.  
Eldri fréttir
Į döfinni Tenglar
Vefumsjón