A A A
Veftré
Valmynd Greinar/Pistlar Tenglar

Afleišingar naušgunar

Varanleg líkamleg eftirköst nauðgana geta verið kynsjúkdómasýking og alnæmissmit, sé nauðgarinn haldinn slíkum sjúkdómum, svo og innri blæðingar. Einnig verða konur stundum ófrískar eftir nauðgun. Af þessum sökum er konum, sem er nauðgað mikil nauðsyn á að fara í læknisskoðun.

Margar konur vilja ógjarnan tala um reynslu sína, en reyna að gleyma henni. En nauðgun hefur svo djúpstæð áhrif á tilfinningalíf kvenna og sjálfsmynd þeirra, að þeim tekst sjaldan að gleyma henni án þess að tilfinningaleg úrvinnsla eigi sér stað. Það er því algengt að utanaðkomandi atvik eða innri spenna verði til þess að leysa minninguna um nauðgunina aftur úr læðingi, jafnvel mánuðum eða árum eftir nauðgunina og þá hefst glíman við afleiðingar á ný.
Helstu eftirköst nauðgana sem konur glíma við eru brotin eða skert sjálfsmynd, sektarkennd, erfiðleikar í kynlífi og þunglyndi. Flestum konum sem er nauðgað finnst að nauðgunin spilli þeim, þær séu annars flokks eftir nauðgunina. Sjálfsmat þeirra og sjálfsmynd riðlast og traust þeirra á körlum getur minnkað. Afleiðing neikvæðrar sjálfsmyndar og þess að njóta ekki stuðnings eftir nauðgun getur stundum orðið til þess að konur skaða sjálfa sig vitandi vits fyrstu mánuðina eftir nauðgunina. Stundum grípa konur líka til þess að misnota áfengi eða lyf til þess að deyfa sársaukann þegar svo stendur á. Erfiðleikar í kynlífi tengjast þessum þáttum svo og því hvernig tilfinningar kvenna eru til eigin líkama eftir nauðgunina. Finnist konu að líkami þeirra hafi breyst, hafi verið skemmdur eða niðurlægður varanlega, finnst henni að öðrum hljóti að finnast hún ógeðsleg og/eða að aðrir særi hana eða vinni henni tjón á ný.


Úrdáttur úr bæklingi Stígamóta; Nauðgun. Dr. Guðrún Jónsdóttir, félagsráðgjafi tók saman í samvinnu við konur á Stígamótum. Hægt er að nálgast bæklinginn hjá Stígamótum.

Eldri fréttir
Į döfinni Tenglar
Vefumsjón